Nýjast á Local Suðurnes

Vilja endurskoða samninga vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir núgildandi samning Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd á fundi Velferðarráðs Reykjanesbæjar á dögunum, en hún leggur til að samningurinn verði endurskoðaður.

Hera Ósk Einarsdóttir

Hera Ósk Einarsdóttir

Hera Ósk leggur til að óskað verði eftir endurskoðun á fyrirliggjandi samningi Reykjanesbæjar og Útlendingastofnunar í ljósi samnings Útlendingastofnunar og Reykjavíkurborgar sem undirritaður var í mars síðastliðnum, en að mati Heru Óskar eru nokkur ákvæði í þeim samningi sem gefa tilefni til endurskoðunar meðal annars vegna breyttrar kostnaðarskiptingar Útlendingastofnunar og þjónustusveitarfélaga.

Þjónustan sem Reykjavíkurborg hefur verið að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið á svipuðum nótum og sú þjónusta sem veitt er í Reykjanesbæ, en það felur meðal annars í sér að sjá til þess að umsækjendur fái framfærslu, hafi aðgang að almenningssamgöngum, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, tækifæri til menntunar, frístunda og virkni, fái þjónustu túlka þegar við á og fleira.

 

Velferðarráð leggur til að endurskoðun fari fram á samningum miðað við þjónustu við óbreyttan fjölda umsækjenda.