Nýjast á Local Suðurnes

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styður við nýsköpunar- og þróunarverkefni

Alls var sótt um fyrir 99 verkefni til Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja við síðustu úthlutun og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á rúmlega 220 milljónir. 35 verkefni fengu styrki samtals að upphæð kr. 45.150.000. Verkefnin sem úthlutað var til á síðasta ári skiptust í þrjá flokka; Menning og listir þar sem úthlutað var til 16 verkefna, 11 verkefni í flokknum nýsköpun og þrónarverkefni fengu styrk og í flokknum stofnstyrkir hlutu 8 verkefni styrk.

Sjóðurinn er byggður á samningi um Sóknaráætlun Suðurnesja fyrir árin 2015 – 2019, sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa gert með sér og tekur við af Menningarsamningi Suðurnesja og Vaxtarsamningi Suðurnesja.

Umsóknarfrestur um styrk úr sjóðnum rennur úr þann 25. janúar næstkomandi, hægt er kynna sér reglur sjóðsins og sækja um hér.

Við síðustu úthlutun hlaut sprotafyrirtækið Mekano styrk frá Sóknaráætlun Suðurnesja og Tækniþróunarsjóði sem gerir það að verkum að fyrirtækið getur haldið áfram þróun og markaðssetningu á vöru sinni, samansettum einingarfjöltengjum fyrir allar gerðir raftækja sem eru mun minni í sniðum en þau fjöltengi sem þekkjast á markaðnum í dag.

“Ef ekki væri fyrir þennan styrk og aðra væri það ekki hægt [að halda úti starfsemi sprotafyrirtækja – innsk. blm], því einhvernveginn og á einhverju þurfa frumkvöðlar að lifa. Þessi styrkur á eftir að nýtast okkur í eitt ár sem launagreiðslur fyrir 2-3 starfsmenn,” Sagði Sigurður Örn Hreindal stofnadi fyrirtækisins eftir úthlutunina úr Uppbyggingarsjóðnum á síðasta ári.