Nýjast á Local Suðurnes

Þurfa ítrekað að losa stíflur vegna aðskotahluta

Mikil aukning hefur verið á magni blautklúta, sótthreinsiklúta, eldhúspappír og annarra aðskotahluta í fráveitukerfi Reykjanesbæjar, en slíkur pappír eyðist ekki í kerfinu eins og salernispappír og festist í dælum og öðrum búnaði.

Þetta hefur orðið til þess að starfsmenn Umhverfismiðstöðvar hafa ítrekað þurft að losa stíflur í dælum og öðrum búnaði á síðustu vikum, segir í tilkynningu á vef Reykjanesbæjar.

Bæjarbúar eru hvattir til þess að setja aðeins klósettpappír í klósettin sín til þess að koma í veg fyrir kostnaðarsamar bilanir á fráveitukerfinu. Allir blautklútar eiga heima í ruslafötum óháð því hvort umbúðir segja að það sé leyfilegt að setja klútana í klósettið.