Nýjast á Local Suðurnes

Stjórn Kadeco óskaði eftir því að framkvæmdastjórinn hætti strax – Fær sex mánuði greidda

Ekki var gerður eiginlegur starfslokasamningur við fráfarandi framkvæmdastjóra Kadeco, Kjartan Þór Eiríksson, sem sagði starfi sínu lausu á dögunum, stjórn félagsins óskaði þó eftir því að hann léti strax af störfum, segir Georg Brynjarsson, nýráðinn stjórnarformaður Kadeco, í svari við fyrirspurn Suðurnes.net. Georg sagði einnig að Kjartan fengi uppsagnafrest sinn, sex mánuði, greiddan að fullu.

Þá kom fram í tilkynningu frá Kadeco að Marta Jónsdóttir, sem starfað hefur sem lögfræðingur félagsins tæki við starfi Kjartans Þórs. Ráðning Mörtu er tímabundin að sögn Georgs, en Marta mun starfa sem framkvæmdastóri félagsins á meðan endurskipulagning á rekstri þess fer fram. Georg sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að ekki væri vitað hversu lengi sú endurskipulagning stæði yfir.