Stakk Suðurnesjalögreglu af en náðist í Hafnarfirði

Lögreglan á Suðurnesjum hóf eftirför í gær þegar bifreið mældist á 190 km/klst, þar sem henni var ekið í átt að Hafnarfirði. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var gert viðvart en í Hafnarfirði náði ökumaður að stinga lögreglu af um stund.
Mannlaus bifreiðin fannst nokkru síðar í póstnúmeri 220 og ökumaður á gangi skammt frá.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að viðkomandi hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð en þar kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt sömu tilkynningu var viðbúnaður mikill vegna málsins, enda um stórhættulegt tilvik að ræða.