Sprengjusveit kölluð út eftir snefilathugun – Nýttu atvikið sem æfingu á viðbragðstíma

Lögregla hefur lokið störfum á vettvangi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur tösku, sem grunur lék á að innihéldi sprengiefni verið komið fyrir á meðal óskilamuna á Keflavíkurflugvelli.
Þetta kemur fram í frétt Vísis, en áður hefur verið greint frá því að sprengjusveit lögreglu hafi verið kölluð út vegna yfirgefinnar tösku í flugstöðvarbyggingunni og hún rýmd, en það reyndist ekki rétt, einungis hluti suðurbyggingar var rýmdur.
Taskan, sem hafði annað hvort gleymst eða verið skilin eftir að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, fannst í suðurbyggingu vallarins á sjötta tímanum í dag. Við fundinn var gerð svokölluð snefilatuhugun á töskunni og út úr henni kom rauð niðurstaða, þ.e. að mögulega væri sprengiefni á eða í töskunni. Þá var haft samband við lögreglu sem bað um aðra snefilathugun.
Úr þeirri könnun kom græn niðurstaða, sem þýðir að ekkert sprengiefni mælist. Lögregla tók þá ákvörðun um að nýta atvikið sem æfingu á viðbragðstíma. Guðjón segir fólk þá hafa verið fært frá svæðinu í kringum töskuna og niður í kjallara byggingarinnar. Æfingunni er nú lokið og hafði atvikið ekki áhrif á flug til og frá vellinum.