Eignir í Grindavík metnar á um 150 milljarða

Náttúruhamfaratrygging Íslands metur heildarverðmæti vátryggðra húseigna í Grindavík á um 110 milljarða króna.
Auk þess nema verðmæti vátryggðs lausafjár, innbús og hafnar- og veitumannvirkja um 44 milljörðum. Eru þá ótalin verðmæti í götum, göngustígum, lóðum og öðrum samfélagslegum mannvirkjum á svæðinu, segir í tilkynningu.
Tíl að setja þetta í samhengi þá kemur fram á vef Byggðastofnunar að íbúafjöldi Grindavíkur sé um 3.600 manns. Áætlað vinnuafl er um 2.100 manns og atvinnuleysi rétt rúm 2%. Sjávarútvegurinn er stærsta atvinnugreinin með ríflega 35% af heildaratvinnutekjum en næst kemur opinber þjónusta.