Skoða möguleika á lúxusrútuferðum frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar

Ferðaþjónustufyrirtækið Grey Line skoðar nú möguleikann á að bjóða upp á rútuferðir frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar. Þannig telur fyrirtækið að koma megi til móts við þá farþega sem erindi eiga norður.
„Hugmyndin er að ferðirnar verði í tengslum við komur og brottfarir á Keflavíkurflugvelli síðdegis. Við teljum að við þurfum að byrja með a.m.k tvær ferðir í viku, síðdegis til Akureyrar og að norðan að morgni dags,“ er haft eftir Þóri Garðarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Gray Line, í tilkynningu.
„Með þessu móti gætu farþegar verið komnir til Akureyrar fyrir miðnætti sama dag og þeir lenda. Á sama hátt gætu þeir náð síðdegisflugi frá Keflavíkurflugvelli sama dag og þeir leggja af stað frá Akureyri,“ segir Þórir.
Í tilkynningu segir að Gray Line muni leggja áherslu á að ferðalagið verði þægilegt og ánægjulegt og leggja til leiðarinnar lúxusrútur úr flota fyrirtækisins.
Treysta á samstarf við flugfélög og ferðaskrifstofur
Að mati Gray Line geta beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar stuðlað að lengri dvöl ferðamanna fyrir norðan og verið ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eiga aðeins erindi þangað og ætla ekki að stoppa á höfuðborgarsvæðinu.
„Til að þetta geti gengið upp þurfa flugfarþegar að vita af þessum valkosti. Gray Line treystir því á góða samvinnu og samstarf við flugfélög og ferðaskrifstofur, ef af þessu verkefni verður,“ segir í tilkynningu.