Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir útskýringum eftir útboð og sölu á líkamsræktartækjum

Mynd: Já.is

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hafa óskað eftir svörum varðandi útboð og í kjölfarið sölu á líkamsræktartækjum í eigu sveitarfélagsins. Samkvæmt bókun fulltrúanna á síðasta fundi bæjarstjórnar var ýmislegt athugavert við útboðið og söluna.

Bókunin í heild:

„Búnaður í eigu Reykjanesbæjar, sem verið hefur í notkun sjúkraþjálfunarinnar Ásjár á Nesvöllum hefur verið boðinn til sölu.

Við skoðun á útboðsgögnum blasir við að útboðsferlið hefur ekki verið hafið yfir allan vafa enda hafa fyrirspurnir borist okkur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar varðandi. Við leggjum því fram eftirfarandi bókun og óskum svara við þeim spurningum sem í henni felast.

Okkur bárust fyrirspurnir og upplýsingar frá einstaklingi sem hafði óskað eftir þeim frá innkaupastjóra Reykjanesbæjar. Samkvæmt þeim verður allur búnaður stöðvarinnar, í eigu sveitarfélagsins, var seldur á þrjár milljónir króna.

Samkvæmt útboðsgögnum var sjúkraþjálfunin Ásjá með forkaupsrétt að tækjunum. Hvernig myndaðist sá forkaupsréttur og hver eru rökin fyrir honum?

Umtalsvert magn búnaðar var boðið til sölu. Hvernig stendur á því að allur búnaðurinn var boðinn í einu lagi en ekki hægt að bjóða í einstaka tæki?

Hvernig var verðmati á tækjunum háttað og hvers vegna er ekkert minnst á áætlað verðmæti þeirra í útboðsgögnum?

Er það rétt að eigendur forkaupsréttaraðila hafi komið að verðmatinu? Hver tók myndirnar í útboðsgögnunum og lýsti ástandi tækjanna?

Var árgerð eða aldur tækjanna staðfestur áður en hann var settur fram í útboðsgögnunum?

Viðbót: Eftir svar formanns bæjarráðs um að utanaðkomandi aðili hafi framkvæmt verðmatið, þá óskum við eftir upplýsingum um það hvaða utanaðkomandi aðili framkvæmdi verðmatið.

Við óskum eftir svörum við ofangreindum spurningum.“