Nýjast á Local Suðurnes

Mikil slysahætta á vinsælu útivistarsvæði barna

Mynd: Skjáskot Facebook

Íbúi í Innri-Njarðvík benti á mikla slysahættu við vinsælt útivistarsvæði barna í hverfinu, en svæðið nýta tugir barna daglega við að renna sér á snjóþotum og -brettum þegar veður og aðstæður eru eins og um þessar mundir. Íbúinn bendir á að ljósastaurar séu neðst við vinsælustu brautirnar í brekkunni sem geti valdið stórskaða, lendi einhver á þeim.

“Ég verð að viðurkenna að mér krossbrá þegar ég horfði á eftir ungum dreng á gífurlegum hraða þjóta yfir gangstíginn og út í móa þar sem hann skall á barðinu og kastaðist upp í loft. Við vorum tveir sem fórum og athuguðum með hann þar sem hann lá eftir byltuna. En hann slapp með sárt rófubein.

Þegar ég gekk aftur í átt að hólnum rek ég auga í þennan fyrrverandi ljósastaur og átta mig á því að drengurinn hefur rétt sloppið við að hafa klesst á hann. Þá hefði ég frekar valið barðið.” Nefnir íbúinn sem sem dæmi.

Í umræðum um málið í lokuðum hópi íbúa Innri-Njarðvíkur á Facebook kemur fram að tvö slys hafi orðið á svæðinu á tveimur dögum þar sem kalla þurfti til sjúkrabíl. Þá er tekið fram í umræðunum að hjólbarðar hafi verið settir við staurana eftir að Reykjanesbæ var send ábending um alvarleika málsins til að til að forða slysum, en færsluritari segir það ekki hafa dugað til hingað til þar sem krakkarnir fjarlægi þá og noti til að renna sér á.