Kröpp lægð nálgast – Vara við aðstæðum á Reykjanesbraut og fólk hvatt til að að festa lausamuni
Í nótt og á morgun nálgast kröpp og dýpkandi lægð sunnan úr hafi og fer þá að hvessa af suðaustri, en gert er ráð fyrir allt að 25 metrum á sekúndu annað kvöld með slagveðursrigningu sunnanlands. Slíkt veður flokkast undir gult ástand samkvæmt kerfi Veðurstofunnar.
“Enga lognmollu er að sjá í veðurkortum helgarinnar, enda fleiri öflug veðurkerfi á leiðinni með tilheyrandi hvassviðri og úrkomu. Því er um að gera að fylgjast vel með veðurspám, ekki síst ef leggja á land undir fót og muna að tryggja lausamuni úti í garði og á svölunum, svo þeir takist ekki á loft vindhviðum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Í nýjustu spám er lítið eitt dregið úr mestu veðurhæð suðvestanlands, engu að síður er spáð stormi með slagveðursrigningu og hviðum allt að 35 m/s á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum. Hvessir nokkuð snögglega upp úr kl.15 og veður nær hámarki í suðvestanlands skamma stund laust fyrir kl. 18.
Veðurspáin næstu daga:
Suðaustan 10-15 m/s A-til framan af morgni og sums staðar rigning, en annars fremur hæg suðlæg átt og smá skúrir eða él. Slydda eða rigning um tíma NA-til síðdegis og fram á kvöld. Kólnar í veðri og hiti 0 til 5 stig síðdegis, en frystir NA-til í kvöld.
Vaxandi suðaustanátt á morgun, 18-25 m/s, og fer að rigna S- og V-til undir kvöld og hlýnar í veðri.
Á fimmtudag:
Vaxandi suðaustanátt, 18-25 m/s undir kvöld, hvassast við fjöll. Talsverð rigning S- og V-til, en lengst af þurrt NA-lands. Hlýnandi veður, hiti 2 til 7 stig um kvöldið.
Á föstudag:
Suðaustan 18-23 m/s og talsverð eða mikil rigning á A-verðu landinu, einkum á SA-landi, en hægari og skúrir eða slydduél V-til. Hiti víða 2 til 7 stig.
Á laugardag:
Vaxandi sunnan- og síðan suðaustnátt með skúra- eða éljahryðjum, stormur og talsverð rigning eða slydda um kvöldið, en hægara og úrkomulítið N- og A-lands. Hiti 0 til 5 stig.
Á sunnudag:
Líklega suðaustlæg átt með éljum, en áfram hvasst og rigning fram eftir degi austanlands.
Á mánudag og þriðjudag:
Sennilega suðaustlæg eða breytileg átt með skúrum eða éljum víða um land.