Nýjast á Local Suðurnes

Isavia kemur til móts við hópferðafyrirtæki

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Þann 1. mars næstkomandi mun Isavia hefja gjaldtöku á stæðum fyrir hópferðabifreiðar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frá því að tilkynnt var um gjaldtökuna í desember 2017 hafa borist ábendingar, meðal annars frá aðilum í ferðaþjónustu að gjaldflokk hafi vantað fyrir millistærð af hópferðabifreiðum.

Til að koma til móts við athugasemdir ferðaþjónustuaðila hefur Isavia bætt við millistærðarflokki sem tekur til hópferðabifreiða sem taka 20-45 farþega. Auk þess verður gjaldið lægra fyrstu sex mánuðina til að veita ferðaþjónustuaðilum möguleika að aðlaga sig að breyttu fyrirkomulagi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Frá 1. mars til 31. ágúst 2018 greiðir hópferðabifreið sem tekur allt að 19 farþega 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina,  20-45 farþega bifreið greiðir 8.900 krónur og bifreið sem tekur 46 farþega eða fleiri greiðir 12.900 krónur. Frá 1. september 2018 greiða minnstu bifreiðarnar 4.900, millistærð 12.500 og stærstu 19.900 krónur. Ekkert gjald er tekið fyrir að skila farþegum í flugstöðina.