Nýjast á Local Suðurnes

Hófu niðurdælingu koltvísýrings í nóvember – Svona virkar þetta!

Fyrsta niðurdæling í tilraunaverkefni fyrirtækisins Carbfix í Helguvík, þar sem jarðsjó er dælt upp, blandað við koltvísýring (CO2) og dælt neðar í berglögin þar sem það breytist í stein, fór fram í nóvember síðastliðnum, samkvæmt fréttatilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins. Um er að ræða fyrstu niðurdælingu með jarðsjó sem framkvæmd hefur verið í heiminum. Fyrirtækið hefur haft lóð til umráða í Helguvík frá árinu 2020.

Nokkur umræða um framkvæmdir fyrirtækisins í Helguvík fóru fram á Facebook-síðu Andstæðinga stóriðju í Helguvík, þar sem eðli málsins samkvæmt flestir þátttakendur eru á móti framkvæmdinni. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, blandaði sér í umræðuna með útskýringum um framkvæmdina frá fyrirtækinu, en þær má sjá hér fyrir neðan.

Verkefnið í Helguvík er rannsóknarverkefni sem snýst um að kanna hvort hægt sé að nota jarðsjó í stað ferskvatns sbr eftirfarandi skýringar frá Carbfix:

Í Helguvík erum við að nota ísalt vatn eða jarðsjó sem er dælt upp fyrst, blandað svo við CO2 og dælt nokkur metra neðar í berglögin þar sem það breytist í stein. Engin áhrif á annað vatn á svæðinu. Engin samkeppni við ferksvatn eða neysluvatn.
Í Straumsvík er notað ferskvatn sem er þegar að streyma til sjávar. Það vatn er ónothæft til drykkjar þar sem það rennur undir iðnaðarsvæði sem og það er ísalt að nokkrum hluta einnig á svipuðu svæði. Engin áhrif á neysluvatn höfuðborgarbúa sem er tekið mun ofar í landinu eða í Kaldárbotnum. Seinna í ferlinu verður einnig notaður jarðsjór.

Jarðskjálftar:
Í minni margra lifa fréttir af jarðskjálftum í Hveragerði vegna niðurdælingar sem urðu árið 2011. Þar var verið að dæla niður á um 2km dýpi mjög miklu köldu vatni í heitt spennusvæði sem losaði skjálfta. Þetta er fyrir tíma Carbfix og var Orka náttúrunnar (ON) sem stóð að þessu. Síðan þá hefur mikil lærdómur safnast. Carbfix, í bæði Helguvík og Straumsvík, er að dæla mun grynnra niður eða undir 1000m. Það hafa aldrei verið framkallaðir skjálftar á Íslandi í svona grunnri niðurdælingu. Auk þess eru jarðlögin svo veik í sér á báðum stöðum að það er nær ómögulegt að framkalla skjálfta. Þess vegna vitum við að það verða ekki skjálftar af okkar völdum en við störfum skv reglugerð Orkustofnunar um niðurdælingu vökva og þar er stendur að lægsta stigið sé “óveruleg hætta af örvaðri jarðskjálftavirkni” og þess vegna segjum við það. En það verða ekki jarðskjálftar.

Það sem er flutt inn:
Í dag eru veitt leyfi fyrir losun frá iðnaði allt í kringum okkur. Helguvík, malbikunarstöðvum, járnblendi, kaffibrennslum, kísilverum og öllu saman. Það sem við erum að flytja inn er hreinsaður útblástur frá iðnaði þar sem náð er í koldíoxíið (CO2). Það er að lágmarki 99,81% hreint CO2 og því hreinna en það sem er þegar losað. Þá er gott að muna að við störfum í landi með lögum og reglum um hvað má flytja milli landa og dæla niður. Það verður því aldrei neinu hleypt í gegn sem stenst ekki lög og reglur. CO2 er svo náttúruleg lofttegund sem er allt um kringum okkur. Hún er ekki eitur eða úrgangur. Það er bara of mikið af CO2 í andrúmsloftinu og við verðum að gera eitthvað í því. Carbfix gerir eitthvað í því með því að koma í veg fyrir losun á því og flytja milli landa. Spánn, Þýskaland, Noregur og Danmörk eru að gera það sama. Það er hluti af aðgerðaáætlun ESB og IPCC segir það hreinlega nauðsynlegt ef við ætlum að ná einhverjum árangri.

Mynd: Carbfix.is