Nýjast á Local Suðurnes

Hafa aðlagast vel í Reykjanesbæ en verða send úr landi

Stephen Oyewole Ajemiare, kona hans Salome Estevez Garcia Buabonah og börn þeirra tvö, eins og hálfsárs gömul stúlka og þriggja ára drengur, sem búið hafa í Reykjanesbæ undanfarin tvö ár verða send úr landi á næstu misserum eftir að Útlendingastofnun úrskurðaði í máli þeirra. Fjölskyldan segist hafa aðlagast vel í Reykjanesbæ, þar sem drengurinn gengur í leikskóla og segjast hræðast tilhugsunina um að fara allslaus til annars lands með lítil börn.

Fréttablaðið og DV.is hafa fjallað um málefni fjölskyldunnar í dag og kemur fram í umfjöllun miðlanna að Stephen hafi staðið í hungurverkfalli síðan síðastliðinn mánudag vegna yfirvofandi brottvísunar. Salome segir að erfitt sé að horfa á eiginmann sinn í slíkum aðstæðum og er hrædd um að eitthvað slæmt muni henda hann.

„Ég þarf einhvern til að heyra sögu mína og hlusta á hana,“ segir Salome sem er hrædd um að ef þau snúi aftur til Afríku verði hún, maður hennar eða börnin, jafnvel drepin. Þá segist Salome þurfa að taka lyf vegna sykursýki. Þau lyf segist hún ekki getað fengið í Afríku.

Þá segir Stephen fjölskylduna hafa aðlagast vel í góðu samfélagi í Reykjanesbæ.

„Sonur minn hefur aðlagast vel í leikskólanum og þetta er gott samfélag. Ég skil ekki af hverju yfirvöld hér átta sig ekki á stöðu okkar, við höfum þó reynt að útskýra hana vel en hver sem er getur áttað sig á því hversu erfitt að það er fara allslaus til annars lands með lítil börn,“ segir Stephen við Fréttablaðið.

Í úrskurði Útlendingastofnunar sem DV hefur undir höndum, kemur fram að Salome, ásamt börnunum tveim og eiginmanninum séu send heim á grundvelli laga um útlendinga.

„Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að Miðbaugs-Gínea væri tiltölulega friðsælt ríki en mannréttindi væru ekki virt að öllu leyti þá einkum hvað varðaði kosningar til stjórnar landsins,“ segir í úrskurði Útlendingastofnunar.

„Það var mat Útlendingastofnunar að fyrirliggjandi upplýsingar bentu ekki til annars en að kærandi og börn hennar gætu búið í Miðbaugs-Gíneu þótt barnsfaðir hennar væri ekki sömu trúar og hún,“ segir ennfremur. Salome er múslimi en eiginmaður hennar er kristinnar trúar.