Nýjast á Local Suðurnes

Hækkun á nær öllum liðum gjaldskrár Reykjanesbæjar

Hækkun á liðum gjaldskrár Reykjanesbæjar nemur 8% frá árinu 2023 en þó með nokkrum undantekningum, samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Í tilkynningu kemur fram að útsvarshlutfall haldist óbreytt milli ára líkt og álagningarhlutfall fasteignaskatts.

Miklar breytingar eru á sorphirðu- og sorpeyðingargjaldi sem nú kallast úrgangshirða og er gjald gjald fyrir hvern úrgangsflokk eftir stærð íláta. Að jafnaði nemur hækkunin um 30% líkt og hjá nágrannasveitarfélögum Reykjanesbæjar.

Aðrir gjaldskrárliðir sem taka meiri hækkun en 8% er árskort í sundlaugar Reykjanesbæjar fyrir 67 ára og eldri sem verður 15.000,- og árskort í almenningsvagna fyrir 18 – 67 ára að undanskyldum námsmönnum og öryrkjum mun kosta 25.000,- en námsmenn og öryrkjar greiða áfram 5.000,- fyrir árskortið í almenningsvagna, segir í tilkynningunni, sem birt er á vef sveitarfélagsins.