Glæpasamtök svíkja út vörur hjá Icelandair – Selt á götum úti erlendis

Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar umfangsmikið fjársvikamál sem upp kom laugardaginn 13. ágúst sl. Einn sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Málavextir eru með þeim hætti að farþegi sem hefur ítrekað komið til landsins, með flugvélum Icelandair, er grunaður um að hafa greitt fyrir ferðir sínar í gegnum vef Icelandair með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Hann er einnig grunaður um, í ferðum sínum, að hafa svikið út með sama hætti vörur sem seldar eru um borð í flugvélunum fyrir háar fjárhæðir.
Hinn grunaði er talinn tengjast erlendum skipulögðum glæpasamtökum sem hafa það að markmiði að svíkja út dýran lúxusvarning um borð í flugvélunum og selja á götum úti erlendis.
Rannsókn málsins miðar vel en hinn grunaði, sem hefur komið við sögu erlendra lögregluyfirvalda vegna samkonar brota, hefur gengist við brotum sínum að hluta.