Féll í gegnum ís á tjörninni í Innri Njarðvík – “Ég ætla ekki að fara að drepast hér“

Ríkharður Óskarsson barðist fyrir lífi sínu eftir að hafa fallið í tjörnina í Innri-Njarðvík þegar hann reyndi að bjarga labrador-tíki sinni, Dimmu, sem hafði fallið í tjörnina rétt fyrir klukkan sjö í morgun.
Ríkharður segist halda að hann hafi verið í vatninu í um 5-6 mínútur áður en hann náði að komast upp. Þá segir hann að þessi reynsla hafi tekið meira á andlega en líkamlega, þrátt fyrir að vatnið hafi verið ískalt.
„Ég held að ég hafi barist þar í fimm eða sex mínútur og reyndi að krafla mig upp á ísinn og öskraði á hjálp en enginn heyrði í mér. Svo hugsaði ég með mér: „Ég ætla ekki að fara að drepast hér“ og sparkaði af alefli og buslaði og buslaði og náði að krafla mig upp á ísinn og lét mig svo rúlla upp að grynningu þar sem ég vissi að var frosið. Þar fór ég upp á hnén og skreið það sem eftir var í land.“ Segir Ríkharður.
„Þegar ég var þarna ofan í horfði ég á kirkjuna og krossinn og hugsaði með mér: „Guð, ef þú ert til, hjálpaðu mér núna.“ Stuttu eftir það gat ég kraflað mig upp.“ Segir hann.
Ríkarður titrar enn þá, um 10 klukkutímum eftir atvikið, og hefur ekki náð að festa svefn. Aðra sögu er að segja af Dimmu. Hún er búin að sofa síðan klukkan átta í morgun, en hún er ekki lík sjálfri sér og vill bara sofa í sínu bæli.
Stutt er síðan ungur drengur féll í gegnum ís á tjörninni í Innri Njarðvík og þá fór einnig betur en á horfðist. Þá féllu tvö börn og maður sem kom þeim til bjargar í gegnum ís á sömu tjörn árið 2002, þá líkt og nú fór betur en á horfðist. Alla frásögn Ríkharðs má lesa hér.