Atli Már hvergi banginn: “Held áfram að skrifa fréttir – Það er fátt sem stoppar það”
Blaðamaðurinn Atli Már Gylfason hefur staðið í ströngu undanfarin misseri vegna umfjöllunar hans um málefni sem varða fólk sem tengist fíkniefnaheiminum hér á landi. Umfjöllun Atla Más, sem birtist í prent- og vefútgáfu Stundarinnar fjallaði um hvarf ungs Íslendings, sem síðast var vitað um í Paragvæ. Atla Má var meðal annars ráðlagt af lögreglu að hafa svokallaðan öryggishnapp meðferðis hvert sem hann færi vegna hótana sem honum bárust þegar umfjöllunin stóð sem hæst.
Atli Már sagðist í samtali við Suðurnes.net vonast til að þetta mál væri nú liðið hjá þar sem sá sem talið var að stæði á bakvið hótanirnar væri farinn af landinu. Þá sagðist Atli ekki notast við öryggishnappinn lengur.
Aðspurður sagðist Atli Már hvergi vera banginn og ætla að halda áfram að stunda þá blaðamennsku sem hann hefði hingað til gert. Þetta tiltekna mál hafði ekki mikil áhrif á hann, enda ýmsu vanur eftir mörg ár í blaðamennsku.
“Þetta hafði lítil áhrif á mig enda vanur þessu eftir öll þessi ár í blaðamennsku en þetta hafði áhrif á þá sem næst mér standa. Þá sérstaklega fjölskylduna mína. Hún hefur ekki þurft að standa frammi fyrir svona áður. Þetta ástand er samt vonandi liðið hjá. Ég held áfram að skrifa fréttir. Það er fátt sem stoppar það.” Sagði Atli Már.