Ætlaði á Ásbrú en endaði á Vogastapa

Erlendur ferðamaður sem ætlaði á Hótel Ásbrú í Reykjanesbæ kallaði eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa lent í ógöngum sem meðal annars má rekja til Google Maps. Maðurinn hafði slegið áfangastað sinn inn í forritið og fengið upp styttri leið að hótelinu. Sú leið reyndist hins vegar vera lengri og grýttari en reiknað hafði verið með, samkvæmt tilkynningu lögreglu.
Þegar lögreglumenn komu að manninum var hann kominn inn á þröngan og stórgrýttan vegarslóða á Vogarstapa.
Í tilkynningunni segir að maðurinn hafi verið á bílaleigubíl af gerðinni Toyotu Yaris og þegar lögregluþjóna bar að garði hafi bílinn verið „búinn á því“, auk þess sem eitt dekk hafi verið sprungið.
Lögregluþjónar aðstoðuðu manninn og gerðu bílaleigunni sem á bílinn viðvart.




















