Lars og Heimir halda Njarðvíkingunum í landsliðshópnum

Landsliðsþjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa valið landsliðshópinn í knattspyrnu sem mætir Danmörku og Grikklandi í æfingarleikjum síðar í mánuðinum.
Miðjumaðurinn efnilegi Arnór Ingvi Traustason, sem leikur með Norrköping í Svíþjóð og markvörðinn Ingvar Jónsson, sem leikur með Sandefjord i Noregi, eru enn í náðinni hjá þjálfurunum og eru valdir í hópinn sem leikur æfingaleikina gegn Danmörku þann 24. mars og Grikklandi þann 27. mars.
Þeir Ingvar og Arnór léku báðir með Njarðvíkingum upp yngri flokkana og Ingvar með Njarðvík og Stjörnunni í meistaraflokki áður en hann hélt í atvinnumennsku. Arnór lék með Keflavík í meistaraflokki áður en hann hélt til Svíþjóðar. Báðir hafa þeir leikið fjóra A-landsleiki og hefur sá síðarnefndi skorað eitt mark.
Leikirnir eru vináttulandsleikir og hluti af undirbúningi Íslands fyrir EM sem fram fer í Frakklandi í sumar. Báðir leikirnir verða sýndir beint á RÚV.