Nýjast á Local Suðurnes

Máli sr. Baldurs lokið af hálfu kirkjuráðs – Öllum aukagreiðslum hætt

Rannsókn kirkjuráðs og Ríkisendurskoðunar á fjármálum Njarðvíkurprestakalls er lokið, þetta kemur fram í fundargerð ráðsins frá 5. apríl. Þar segir enn fremur að Njarðvíkursóknir hafi veitt upplýsingar og útskýringar við þeim spurningum sem beðið var.

Þá kemur fram í fundargerðinni að öllum aukagreiðslum hafi verið hætt til sóknarprestsins og hefur það verið staðfest af formönnum sóknarnefndanna.

Kirkjuráð hóf úttekt á fjármálum Njarðvíkurprestakalls í byrjun árs í samstarfi við Ríkisendurskoðun vegna bílastyrks  sem sr. Baldur Rafn Sigurðsson hafði fengið greiddan undanfarin ár. Greiðslurnar námu 88 þúsund krónum á ári.

Ekki kemur fram í bókun ráðsins hvort skoðun á málefnum séra Baldurs vegna fjármála Líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju sé lokið, Kirkjuráð, með fulltingi Ríkisendurskoðunar, hafði einnig til skoðunar fjárreiður Líknarsjóðsins eftir að Kvenfélag Njarðvíkur kvartaði til Kirkjuráðs eftir að matarkort, sem félagið gaf líknarsjóðnum, virtust ekki skila sér til bágstaddra fyrir jól.

Úttekt Kirkjuráðs og Ríkisendurskoðunar lýtur að 100 matarkortum, upp á 20.000 krónur hvert eða sem samsvarar tveimur milljónum króna, sem kvenfélagið gaf líknarsjóðnum fyrir jólin 2012 og virtust ekki skila sér til bágstaddra fyrir jólahátíðina.

Kirkjuráð hefur ekki svarað fyrirspurnum Suðurnes.net vegna þessara mála.