Nettó gefur súpu á Menningarnótt – Nýta hráefni sem komið er á síðasta söludag

Suðurnesjafyrirtækið Nettó mun bjóða gestum og gangandi upp á diskósúpu á Menningarnótt undir merkjum átaksins Minni sóun. Tilgangurinn er að ylja gestum með bragðmikilli súpu sem elduð er úr hráefni sem komið er á síðasta söludag eða er útlitsgallað og færi undir öðrum kringumstæðum í ruslið þó það sé enn í fullu fjöri.
Diskósúpan inniheldur því allskonar ljúffengt grænmeti og verður bæði vegan og glútenfrí.
Súpupartýið er hluti af Garðpartýi Bylgjunnar og verður staðsett í Hljómskálagarðinum á Menningarnótt frá klukkan 17. Um eittþúsund manns brögðuðu á súpunni í boði Nettó á síðustu Menningarnótt.