Nýjast á Local Suðurnes

Wizz hefur áhuga á íslenskum flugfreyjum

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz-air hefur áhuga á að ráða íslenskar flugfreyjur og flugþjóna til starfa og hefur til skoðunar að halda kynningu á starfsmöguleikum hjá félaginu hér á landi. Flugfélagið flýgur til níu áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli.

Wizz-air heldur reglulega kynningar á starfseminni fyrir flugþjóna víða um heim og sagði fjölmiðlafulltrúi flugfélagsins að það hafi verið rætt innahúss hjá félaginu að halda slíka kynningu hér á landi og að það kæmi í ljós fljótlega hvort af yrði, en staðfesti að áhuginn væri svo sannarlega fyrir hendi.

Þá sagði fjölmiðlafulltrúinn, í svari við fyrirspurn Suðurnes.net um hvort flugfélagið hyggðist fylla það skarð sem myndaðist við fall WOW-air með því að fjölga áfangastöðum í flugi frá Íslandi, það ávallt vera til skoðunnar að bæta við leiðarkerfi félagsins almennt, en að margt þyrfti að koma til svo það væri fýsilegt þar á meðal þyrfti að skoða lendingargjöld og farþegatölur.