Talsvert magn af reiðufé í óskilum – Lögregla leitar eigandans

Talsvert magn af reiðufé fannst í umslagi í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í morgun. Auglýst er eftir eigandanum.
„Nú vantar okkar aðstoð ykkar og vonumst eftir því að í sameiningu getum við bjargað jólunum hjá væntanlega áhyggjufullu fólki,“ segir í færslu lögreglunnar á Facebook í morgun. „En málið er þetta…talsvert magn af reiðufé fannst í umslagi í morgun hér á svæðinu. Í umslaginu, auk þessara peninga er kvittun og fleira, en ekki nóg fyrir okkur til að hafa upp á eigandanum. Nú vantar okkur að finna eigandann af þessu og vonumst við til að þetta komist til skila fyrir jólin og leitum við því eftir aðstoð ykkar. Að sjálfsögðu þarf eigandi að segja okkur hversu mikil upphæð er í umslaginu.“
Lögreglan á Suðurnesjum sagði í samtali við mbl.is um kl. 10.30 að eigandinn væri enn ekki fundinn en hægt er að senda lögreglunni skilaboð á Facebook varðandi málið.