Stöðvaður í Leifsstöð með tvö kíló af kókaíni falin í ferðatösku

Íslenskur karlmaður sem grunaður er um að hafa komið að innflutningi á rúmum tveimur kílóum af kókaíni situr nú í gæsluvarðhaldi. Þrír hafa sætt gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp, en tveir þeirra hafa verið látnir lausir.
Í tilkynningu frá lögregu segir að forsaga málsins sé sú að tollverðir hafi stöðvað íslenskan karlmann á sextugsaldri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hann var að koma til landsins frá Spáni seinni hluta síðastliðins mánaðar. Í farangri hans fundust rúm tvö kíló af kókaíni sem falin voru í fóðri í ferðatösku hans. Hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Lögreglan á Suðurnesjum hóf rannsókn á málinu og voru í kjölfarið handteknir tveir menn á fimmtugsaldri, grunaðir um fjármögnun og skipulag innflutnings á efnunum. Annar hinna síðarnefndu sætir enn gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins er á lokastigi.