Nýjast á Local Suðurnes

Ræddu 120 milljóna króna launapakka bæjarstjóra – “Mikil óánægja meðal bæjarbúa”

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar - Mynd: Skjáskot RÚV

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbóta, lagði fram bókun varðandi launakjör bæjarstjóra á fundi bæjarráðs í vikunni, en á fundinum var lagt fram minnisblað um málið.

Margrét segir meðal annars að mikil óánægja ríki á meðal bæjarbúa vegna hækkana á launum bæjarstjóra, en greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að það stefni í að launin hækki úr 1.850.000 krónum við upphaf síðasta kjörtímabils í rúmlega 2.500.000, auk ýmissa fríðinda í formi akstursgreiðsla og trygginga. Séu grunnlaun reiknuð út kjörtímabilið nema þau um 120 milljónum króna.

Bókun Margrétar í heild:

„Umbót tekur undir fyrirspurnir og athugasemdir Sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi bæjarstjórnar.

Bæjarfélag okkar er að rétt að hefja jákvæða fjárhagslega uppbyggingu eftir ansi mörg mögur ár í kjölfar hruns. Má þar nefna að starfsmenn Reykjanesbæjar tóku á sig ýmsar skerðingar vegna bágrar fjárhagsstöðu sem og íbúar Reykjanesbæjar. Gæta þarf hófs í hækkun launa sem þegar eru há og er þessi hækkun langt umfram þær hækkanir sem aðrir starfsmenn bæjarins hafa þegið. Teljum við þetta ekki vera góðan grunn fyrir næstu kjaraviðræður við starfsmenn bæjarins og hafa þarf það í huga. Mikil óánægja ríkir á meðal bæjarbúa vegna þessara hækkana á launum skv. ráðningarsamningi við bæjarstjóra. Samkvæmt þessu er bæjarstjóri okkar bæjarfélags á hærri launum en hæstráðandi ráðherra Íslands.“