Nýjast á Local Suðurnes

Sportbíll endaði í smábátahöfninni í Keflavík eftir spól

Sportbíll endaði út í smábátahöfninni í Keflavík á áttunda tímanum í kvöld með þeim afleiðingum að bílstjóri og farþegi um tvítugt hlutu minniháttar meiðsl. Þetta kemur fram á vísi.is en þar má einnig sjá myndir frá vettvangi.

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hafði ökumaðurinn verið að spóla í hringi við höfnina þegar inngjöf bílsins festist niðri og ökumaðurinn missti stjórn á bílnum.

Bíllinn fór yfir nálægan varnargarð og festi um leið annað framdekkið í garðinum en við það rifnaði hjólabúnaður bílsins af.

Bæði ökumaður og farþegi komust úr bílnum af sjálfsdáðum og voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til athugunar og aðhlynningar. Meiðsli þeirra eru talin minniháttar.

Bíllinn var dreginn upp úr höfninni og er kominn í geymslu. Hann er talinn ónothæfur með öllu eftir atvikið.