Nýjast á Local Suðurnes

Saklaus í 40 daga fangelsi

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi nígerískann karlmann til 40 daga fangelsisvistar fyrir skjalafals og brot á útlendingalögum eftir að hann hafði framvísað fölsuðum pappírum við komuna til landsins.

Málið lá nokkuð ljóst fyrir og játaði ákærði þá háttsemi sem honum var gefin að sök, en nafnið á þeim pappírum sem maðurinn framvísaði vakti nokkra athygli, en hann notaði nafnið Innocent eða Saklaus.

Samkvæmt dómnum hafði maðurinn, í blekkingarskyni, framvísað grunnfölsuðu ítölsku vegabréfi ánöfnuðu Innocent Osagie við komuna til landsins auk þess sem hann mun hafa framvísað fölsuðum dvalarleyfispappírum undir sama nafni.

Sem fyrr segir játaði maðurinn þá háttsemi sem honum var gefin að sök, en sökum alvarleika brotanna sá héraðsdómur sér ekki fært að skilorðsbinda dóminn og var hann því dæmdur til 40 daga fangelsisvistar auk þess sem honum var gert að greiða kostnað við vörn sína, tæplega 200.000 krónur.