Nýjast á Local Suðurnes

Ráðuneyti leitar til Reykjanesbæjar um rekstur öryggisvistunar

Félagsmálaráðuneytið hefur leitað til Reykjanesbæjar eftir samstarfi um byggingu og rekstur öryggisgæslu og öryggisvistunar í Reykjanesbæ sem lið í að vinna að framtíðarlausn fyrir einstaklinga sem þurfa nauðsynlega á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda.

Annars vegar er um að ræða að finna hentugt húsnæði undir rekstur öryggisgæslu og öryggisvistunar til 24 mánaða fyrir 2-3 einstaklinga sem þurfa á öryggisgæslu að halda og hins vegar útvegun lóðar fyrir byggingu húsnæðis fyrir 6 – 7 einstaklinga sem þurfa á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda.

Fyrir utan störf sem skapast á byggingatíma húsnæðis þá er reiknað með að a.m.k. 30 starfsmenn muni starfa við öryggisgæslu og vistun þegar starfsemin er komin í fullan gang, en í skammtímaúrræðinu er gert ráð fyrir störfum fyrir a.m.k. 15 – 20 starfsmenn.

Með þessu verkefni leggur félagsmálaráðuneytið áherslu á að styðja við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, auka breidd í atvinnulífinu, skapa tækifæri til þróunar námstilboða í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu og almenna styrkingu þekkingar og færni í velferðarþjónustu á Suðurnesjum.

Félagsmálaráðuneytið óskar eftir milligöngu Reykjanesbæjar um útvegun húsnæði til reksturs öryggisgæslu og öryggisvistunar til skemmri tíma annars vegar, sem farið getur af stað í haust, og hins vegar útvegun lóðar 1500 – 2000 m2 til byggingar húsnæðis sem lokið yrði árið 2023. Rekstur stofnunarinnar yrði á vegum ríkisins.

Bæjarráð samþykkir að taka þátt i verkefninu og felur bæjarstjóra að vinna áfram í málinu.