Nýtt 80 rýma hjúkrunarheimili Hrafnistu opnað

Nýtt 80 rýma hjúkrunarheimili var opnað við Nesvelli í Reykjanesbæ í dag. Opnun heimilisins er mikilvægur áfangi í uppbyggingu hjúkrunarrýma um land allt. Hjúkrunarheimilið er samtengt Hrafnistu Nesvöllum sem er 60 rýma hjúkrunarheimili með heildstæðri þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara.
Samhliða opnuninni var hjúkrunarheimilinu Hlévangi lokað og fluttust þrjátíu íbúar þaðan inn á nýja heimilið í desember ásamt fleiri nýjum íbúum. Heildarfjöldi rýma á hjúkrunarheimilum á Suðurnesjum er því nú orðinn 140.
Vandaður aðbúnaður og aukið öryggi Nýja hjúkrunarheimilið er alls 5.444 m2 og skiptist í átta deildir með tíu einkarými á hverri deild. Við hönnun og framkvæmd var lögð áhersla á nýsköpun sem eykur öryggi og þægindi íbúa og bætir vinnuaðstöðu starfsfólks til muna. Má þar nefna nýjar lausnir fyrir baðaðstöðu, loftlyftukerfi í öllum einkarýmum, nýja tegund aðgangsstýringar, nýtt fyrirkomulag lyfjatiltektar og víðtækara sjúkrakallkerfi.





















