Nýjast á Local Suðurnes

Lobster Hut við Hafnargötu á Ljósanótt – “Veislumatur úr veitingavagni”

Fjóla Sigurðardóttir mun, að vanda, standa humarvaktina hjá Lobster Hut, við Hafnargötu alla Ljósanæturhelgina, eins og undanfarin ár, en í veitingavagninum verður boðið upp á humarsúpu og humarsamlokur af bestu gerð.

Fjóla segist í samtali við Suðurnes.net hafa fengið hugmyndina að Lobster Hut þegar hún var á ferðalagi í Taílandi árið 2010, en hún lét þó ekki verða af því að stökkva út í djúpu lögina fyrr en fjórum árum síðar og fjárfesti í vagninum, sem er sérstaklega innréttaður fyrir reksturinn.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég var úti í Taílandi, árið 2010. Þar voru svona kokteilavagnar úti um allt, þeir eru ekki leyfðir hér en mig langaði að gera eitthvað alveg íslenskt,“ segir Fjóla, sem ferðast um landið með vagninn og getur ekki beðið eftir að afgreiða skemmtilegt fólk á Ljósanótt, “Við förum á margar bæjarhátíðir á hverju sumri og okkur hlakkar alltaf jafnmikið til að afgreiða skemmtilegt fólk í Reykjanesbæ á Ljósanótt.”

Lobster Hut er einn vinsælasti veitingavagn landsins og sagði Fjóla ástæðuna meðal annars vera þá að eingöngu væri notast við besta fáanlega hráefni við eldamennskuna og nefnir sem dæmi að humarinn sé steiktur á staðnum og að grunnurinn að humarsúpunni sé heimalagaður, en þannig fáist hið frábæra bragð sem Lobster Hut er þekkt fyrir.

Lobster Hut er einn af þeim veitangasölum sem fær mikið lof á hinni virtu ferðavefsíðu Tripadvisor, en þar eru umsagnirnar á allar á þann veg að um sé að ræða frábæran skyndibita á viðráðanlegu verði, eða eins og sagði í einni umsögninni (í lauslegri þýðingu): “Veislumatur úr veitingavagni. Fimm stjörnur”