Nýjast á Local Suðurnes

Jarðskjálfti hafði umtalsverð áhrif á yfirborð

Mynd: Visit Reykjanes

Sérfræðingar Veðurstofunnar farið í vettvangsferðir til að kortleggja helstu ummerki jarðskjálfta af stærð 5,6 sem varð á Reykjanesskaga, nánar tiltekið á milli Fagradalsfjalls og Kleifarvatns, þann 20. október síðastliðinn. Auk vettvangsferða hefur Veðurstofan nýtt gervihnetti til að greina meðal annars þenslu í eldstöðvum og fylgjast með óstöðugum hlíðum.

Á vef veðurstofunnar segir að sjá megi skýrt merki um aflögun við Skolahraun og sýnir það færslu um allt að 5 sm, aðallega láréttar færslur miðað við sjónarhorn og flug gervitunglsins. Til viðbótar má sjá aflögun í nágrenni Driffells og austan Keilis, en allar þessar færslur tengjast misgenginu sem hrökk í jarðskjálftanum. Fjölda yfirborðssprungna má sjá á svæðinu eftir jarðskjálftana. Nánar má lesa um rannsóknirnar og sjá skýringarmyndir á vef Veðurstofu.

Jarðskjálftinn er hluti af óvenju mikilli virkni á Reykjanesskaga sem hófst fyrr á árinu og samanstendur bæði af jarðskjálfta- og kvikuinnskotavirkni. Hún er enn í gangi og má búast við áframhaldandi jarðskjálftum á svæðinu.