Hefja alþjóðlega fjársöfnun – “Hættum ekki fyrr en við jörðum þessa verksmiðju”

Samtök andstæðinga stóriðju í Helguvík stefna á að hefja fjársöfnun á Karolinafund á næstu dögum til að standa undir kostnaði við fyrirhugaða hópmálsókn fyrir hönd íbúa Reykjanesbæjar gegn United Silicon sem rekur kísilver í Helguvík.
Á fjölmennum íbúafundi, sem haldinn var í Stapa í gærkvöldi, kom einnig fram að mögulega verði einnig farið í mál við fleiri aðila vegna verksmiðjunnar.
„Viljum við að Bítlabærinn okkar fallegi endi sem kísilbærinn í sögubókum komandi kynslóða?“ spurði Einar Már Atlason, formaður samtakanna, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. „Við hættum ekki fyrr en við jörðum þessa verksmiðju.“
Þá sóttust samtökin eftir styrk frá Reykjanesbæ og var beiðnin tekin fyrir á fundi bæjarráðs í gær. Ráðið sá sér ekki fært að styrkja samtökin að þessu sinni.