Nýjast á Local Suðurnes

Frankvæmdir við tvöföldun á undan áætlun

Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar á milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ganga vel og er útlit fyrir að verkinu ljúki á undan áætlun. Upphaflega var gert ráð fyrir verklokum um mitt ár 2026.

Anna Elín Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir að í heildina hafi framkvæmdir gengið hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir að unnið sé á umferðarþungu svæði. „ÍAV, verktakinn sem vinnur að framkvæmdinni, á hrós skilið fyrir góða skipulagningu og vel unnið verk,“ segir hún.

Helstu áskoranir á framkvæmdatímanum hafa verið mikil umferð og hraðakstur á Reykjanesbrautinni, að sögn Önnu Elínar. „Vinnusvæðamerkingar hafa verið áskorun en það hafa því miður orðið slys þrátt fyrir merkingar samkvæmt reglum. Við sem stöndum að verkinu þ.e. teymi verkkaupa, eftirlits og verktaka höfum verið í stöðugri úrbótavinnu og leitað leiða til að tryggja öryggi vegfarenda sem best. Að vinna slíkt verkefni í íslensku vetrarveðri er einnig áskorun,“ upplýsir Anna Elín.

Hér má sjá myndir og myndbönd sem eru tekin á verkstað auk frekari upplýsinga um stöðu framkvæmdanna.