Nýjast á Local Suðurnes

Jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg – Fundust vel í Grindavík

Tæplega 360 jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni 28. nóv til 4. desember. Virknin var með tiltölulega hefðbundnu sniði á flestum stöðum á landinu en nokkru meiri á Reykjaneshrygg en síðustu vikur.

Það er Grindavík.net sem greinir frá þessu, en þar kemur fram að tveir skjálftar af stærð 2,7 og 2,3 hafi mælst við Grindavík um hálf fjögur að morgni 11. desember og fundust þeir í Grindavík. Tvær litlar hrinur urðu á Reykjaneshrygg í vikunni, önnur rúmlega 20 km suðvestur af Reykjanestá 7. desember og hin um 50 km suðvestur af Reykjanestá 11. desember.

Heldur meiri virkni var á Reykjanesi og Reykjanesskaga samanborið við vikuna á undan. Tæplega 50 skjálftar mældust, tveir stærstu skjálftarnir voru 2,8 að stærð 7. desember í smá hrinu um 20 km suðvestur af Reykjanestá. Þeir voru einnig stærstu skjálftar vikunnar. Alls mældist rúmur tugur skjálfta dagana 7. og 8. desember. Sex skjálftar mældust tæpum 50km suðvestur af Reykjanestá 11. desember, sá stærsti 2,2 að stærð. Sex jarðskjálftar mældust við Grindavík, tveir stærstu voru 2,7 og 2,3 að stærð kl 03:27 að morgni 11. desember. Nokkrar tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir hafi fundist í Grindavík. Átta skjálftar mældust við sunnanvert Kleifarvatn, sá stærsti var 2,1 að stærð þann 7. desember.