Fékk tveggja mánaða dóm fyrir að stela merkjavöru og áfengi

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi á dögunum erlendan ríkisborgara fyrir þjófnað í Fríhafnarverslunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Brotin áttu sér stað árið 2018 og kom fram við dómsuppkvaðningu að maðurinn hafi ekki áður gerst brotlegur við lög og að hann hafi ekki mætt fyrir dóminn.
Maðurinn var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tekið ófrjálsri hendi 2 stykki af Allure Homme Edt rakspíra, 2 stykki Allure H. Sport Eau E rakspíra, 2 stykki Allure H. Sport C rakspíra, Bleu de Chanel After shave, Bleu de Chanel edt rakspíra, Camus Borderies XO 4 koníak og 2 stykki Balancing shampoo, samtals að verðmæti 113.080 krónur. Ennfremur, með því að hafa sama dag og í sömu flugstöð farið inn í verslun Airport Retail og tekið þaðan ófrjálsri hendi Hugo Boss saggy peysu, Hugo Boss hadiko buxur og Hugo Boss Obaran úlpu, samtals að verðmæti 127.470 krónur.