Byggja steypustöð í Reykjanesbæ

B.M. Vallá ehf. hefur fengið samþykki umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar fyrir byggingu steypustöðvar og einingaverksmiðju við Ferjutröð á Ásbrú.
Lóð fyrirtækisins er 15.100 fermetrar að stærð og miðast hæð bygginga almennt við 7 metra frá jörðu en einstakir byggingarhlutar eins og síló nái allt að 17 metra hæð. Grenndarkynningu er lokið og bárust engar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.
Nánari skilmálar um lóð verði ákveðnir í deiliskipulagi, segir í fundargerð auk þess sem farið er fram á að starfsemin taki fullt tillit til nálægrar íbúðabyggðar, hvað varðar hávaða eða rykmengun.