Nýjast á Local Suðurnes

Allar starfsstöðvar Bláa lónsins opnar

Allar starfsstöðvar Bláa lónsins hafa opnað að nýju. Opnunin nær til allra rekstrareininga, Bláa Lónsins, Blue Café, veitingastaðanna Lava og Moss, hótelanna Retreat og Silica, Retreat Spa og verslunarinnar á svæðinu, segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

Þá segir að ákvörðunin hafi verið tekin í nánu samráði við yfirvöld en sem fyrr sé fyrirmælum fylgt í hvívetna.

Nýr vegkafli við afleggjarann að Bláa Lóninu er nú opinn og því geta gestir keyrt hefðbundna leið að lóninu. Sérstaklega er tekið fram að nýi vegkaflinn sé malarvegur en til stendur að malbika hann síðar.

“Athygli gesta er vakin á því að starfsstöðvar okkar eru innan hættusvæðis vegna jarðhræringa samkvæmt mati Veðurstofu Íslands. Komi til stórra jarðskjálfta eða mögulegra eldhræringa verða gestir látnir vita og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Veðurstofa Íslands fylgist gaumgæfilega með virkni á svæðinu og framgangi mála og á sú vöktun sér stað allan sólarhringinn. Starfsemi okkar tekur sem fyrr mið af hættumati og ráðleggingum yfirvalda á hverjum tíma.” Segir í tilkynningunni.