Bygging hátt í 1000 íbúða í skipulagsferli

Skipulagstillögur hafa verið fyrirferðamiklar á fundum umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar undanfarið, en nokkrar slíkar voru teknar fyrir á fundi ráðsins á dögunum. Allar á Ásbrú og nágrenni.
Vinnslutillögur deiliskipulags fyrir Suðurbrautarreit, sem er 3,3 ha reitur kenndur við Suðurbraut 765 var lögð fyrir. Á reitnum er gert ráð fyrir fjölbýlishúsum á 3-5 hæðum með allt að 300 íbúðum af fjölbreyttri gerð. Sérstakir byggingarreitir eru ætlaðir sérstakri notkun annarri en fyrir íbúðir, t.d. samkomuhús, garðskála o.fl.
Umhverfis- og skipulagsráð felur skipulagsfulltrúa að koma athugasemdum ráðsins áfram og í kjölfarið var erindinu frestað.
Þá lögðu Sen&Son arkitektar fram vinnslutillögu deiliskipulags fyrir Spítalareit sem afmarkast af Flugvallarbraut, Grænásbraut og Breiðbraut. Á deiliskipulagssvæðinu verður gert ráð fyrir lágreistri 2- 4 hæða byggð fjölbýlishúsa sem mynda svokallaða randbyggð með allt að 250 íbúðum. Skipulagssvæðið er vel staðsett á Ásbrú og er hluti af tveimur hverfum samkvæmt rammaskipulagi. Það er í hjarta Ásbrúar og Offiserahverfinu svokallaða. Það er því mikilvægt að reiturinn uppbyggður verði sterkur tengipunktur mismunandi hverfahluta, segir í fundargerð.
Umhverfis- og skipulagsráð fól skipulagsfulltrúa einnig að koma athugasemdum ráðsins áfram varðandi þessa tillögu og frestaði erindinu
Studeo Jæja fyrir hönd Kadeco, lagði fram vinnslutillögu deiliskipulags fyrir Breiðbrautarreit sem afmarkast af Lindar-, Grænás- og Breiðbraut. Nýjar byggingar skapa skjól fyrir ríkjandi áttum, norðan og austanátt, en opnast að sama skapi til móts við suður og vestur. Þetta einfalda grunnstef tekur svo á sig ólíkar myndir þar sem það lagar sig að núverandi aðstæðum en með þessu móti tekst að skapa fjölbreytilegt byggðarmynstur með áhugaverðum sjónásum á milli ólíkra staða innan svæðisins.
Umhverfis- og skipulagsráð heimilaði að kynna vinnslutillöguna og felur skipulagsfulltrúa að koma athugasemdum ráðsins áfram.
Af2 fyrir Kadeco leggur fram vinnslutillögu deiliskipulags fyrir Suðurbrekku, svæði sunnan við Skógarhverfi, austan Virkisbrautar að Flugvallarbraut. Byggingar verði 1-3 hæðir og blanda af sérbýli og fjölbýli með um 200 íbúðum alls af fjölbreyttri gerð. Markmiðið er að nýtt deiliskipulag á Suðurbrekkureit skapi heildstæða og hlýlega byggð einbýlishúsa, raðhúsa og lítilla fjölbýlishúsa.
Umhverfis- og skipulagsráð heimilar að kynna vinnslutillöguna og felur skipulagsfulltrúa að koma athugasemdum ráðsins áfram.
Þá óskaði B.M. Vallá ehf. eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir Ferjutröð 11 að Tæknivöllum Ásbrú.
Erindið var grenndarkynnt og samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 28.01.2025. Engar athugasemdir bárust en komið hefur í ljós misræmi í gögnum. Síló var kynnt 17 m á hæð en verður í reynd 18,3 m. Gögn með nánari almennum málsetningum eru lögð fram.
Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin á deiliskipulagi varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna.