Bæta aðkomu fyrir sjúkrabíla við HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur óskað eftir heimild frá Reykjanesbæ til að byggja sjúkrabílamóttöku ásamt hjólageymslu á bílastæði lóðar stofnunarinnar við Skólaveg og um leið að stækka bílastæði inn í skrúðgarðinn. Auk þess er gert ráð fyrir að byggja utan um varmadælur sem settar voru upp til að tryggja rekstraröryggi vegna mögulegra skemmda á hitaveitulögn.
Sjúkrabílamóttakan er fyrir 2 sjúkrabíla og er gegnumakstur í gegnum bygginguna. Hjólageymslan er sambyggð með sér inngangi að Sólvallagötu, segir í erindi stofnunarinnar. Byggingin sem um ræðir er um 200 fermetrar að stærð og allt að 5 metra há. Til að tryggja greiðan akstur frá sjúkrabílamóttökunni er óskað eftir að fá að stækka plan 4,5 m út fyrir lóðarmörk inn í skrúðgarðinn. Runnagróður við lóðarmörk yrði færður til sem stækkun nemur.

Byggingin tekur upp mörg bílastæði og er óskað eftir að bæta þau upp með því að útbúa stæði sem fara 4,5 metra út fyrir lóðarmörk. Bílastæði og aksturplan út fyrir lóðarmörk er um 330 fermetrar. Óskað er eftir að aðskilja innakstur og útakstur með því að setja upp nýja útkeyrslu frá lóð.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti erindið gegn því að landslagsmótun verði unnin í samráði við starfsfólk umhverfis- og framkvæmdasviðs og að framkvæmdin verði sveitarfélaginu að kostnaðarlausu.
Mynd: Vefur Reykjanesbæjar.