Bæjaryfirvöld hafa gert ráð fyrir niðurrifi sundhallar frá árinu 2006

Gert hefur verið ráð fyrir því í gögnum bæjarins frá 2009 að húsnæði gömlu sundhallarinnar við Framnesveg í Reykjanesbæ væri víkjandi og raunar gert ráð fyrir niðurrifi þess frá árinu 2006.
Þetta kemur fram í máli Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, en hann ræddi við mbl.is um ástæður þess að deiliskipulag við Framnesveg var samþykkt á dögunum.
„Við frestuðum afgreiðslu á deiliskipulaginu um mánuð í samvinnu við Minjastofnun til að gefa samtökunum tækifæri á að koma með einhverjar hugmyndir um hvað hægt væri að gera,“ segir Friðjón
„Húsið þarfnast mikils viðhalds og lagfæringar. Upphæðirnar hlaupa á hundruðum milljóna ef það á að lagfæra það,“ segir hann. Ekki standi til að bærinn kaupi húsið og Hollvinasamtökin hafi aldrei óskað aðkomu bæjarins með öðrum hætti en að biðlund sé sýnd.
Hollvinasamtök Sundhallarinnar hafa undanfarnar vikur barist fyrir því að Sundhöllin verði ekki rifin, heldur verði húsinu fundið annað hlutverk. Friðjón segir ekkert hafa komið út úr þeim hugmyndum, enda skilgreini Hollvinasamtökin sig sem áhugahóp, ekki fjárfesti.