Annar hvellur væntanlegur – Lögreglan þurfti að eltast við nokkur trampólín í gær

Í fyrramálið kann að verða ástæða fyrir forráðamenn til að fylgja ungum börnum í skólann þar sem önnur kröpp lægð er á leið yfir landið sunnan- og vestanvert árla morguns. Á þessum landsvæðum fóru líklega fáir varhluta af hamaganginum sem fylgdi lægðinni síðastliðna nótt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá tryggingafélaginu VÍS.
Þar er haft eftir Einari Sveinbjörnssyni hjá Veðurvaktinni að vindstyrkurinn verði litlu minni nú og vindáttin svipuð.
„Í nótt og í fyrramálið er spáð öðrum hvelli þegar ný lægð fer hratt nokkurn veginn í sömu slóð og hin fyrri. Það hvessir suðvestanlands skömmu fyrir miðnætti en allar líkur eru á að veðurhæð verði ekki alveg jafn mikil og síðustu nótt. Nú er spáð allt að 23 m/s meðalvindi í stað 25 m/s í gær. Á móti kemur að veðrið nær sennilega hámarki um fótaferðartíma í fyrramálið eða á milli klukkan 6 og 8 og geta hviður farið í 30-35 m/s. Upp frá því lægir heldur á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu en á Snæfellsnesi verður hins vegar stormur fram á daginn,“ segir Einar í tilkynningunni.
Lögreglan á Suðurnesjum þurfti að eltast við nokkur trampólín síðastliðna nótt en þar á bæ hafa menn smá húmor fyrir þessu, eins og kemur fram á Facebook-síðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum, en þar segir:
Sá sem þetta ritar var á næturvakt síðastliðna nótt og lentum við félagarnir í talsverðum vandræðum með trampólín sem ekki var búið að tjóðra. Ekki eitt heldur 5 stk. Vinsamlegast takið mark á þessum aðvörunum og virðum eigur náungans því trampólínið “þitt” fýkur ekki bara í þínum garði. En eitt svona trampólíð getur skemmt alveg gríðarlega mikið.
Bætum hér við smá húmor með þessu:)
“Trampólín eru ekki lyfseðilskyld og því ætti að vera óhætt að taka þau inn hvenær sem er og kannski sérstaklega ef veður er vont. Aukaverkanir af inntöku eru óverulegar.”