Nýjast á Local Suðurnes

Brautarnesti verður að bílastæði

Ákveðið var á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar á dögunum að selja fyrrum húsnæði tónlistarskóla bæjarins auk þess sem gengið var frá kaupum á einni elstu sjoppu landsins.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku tilboð upp á rúmar 33 milljónir í fyrrum húsnæði tónlistarskólans að Austurgötu 13 og fól bæjarstjóra að ganga frá sölunni. Á sama fundi var samþykkt að ganga frá húsnæði við Hringbraut 93 b þar sem söluturninn Brautarnesti hefur verið starfandi í áratugi. Húsið skemmdist talsvert í eldvoða fyrr í sumar.

Ef þessi viðskipti verða samþykkt á næsta bæjarstjórnarfundi er ráðgert að rífa niður húsnæðið við Hringbraut 93 og byggja þar bílastæði sem þjóna ætti starfsfólki leikskólans Tjarnarsels við Tjarnargötu. Þar hafa bílastæði þótt varasöm þar sem bakka þarf fyrir umferð á mikilli umferðargötu þegar farið er úr stæðunum.