Yfir 200 umsóknir um sex lóðir

Alls bárust 204 umsóknir um 6 lóðir við Tjarnarbraut í Innri-Njarðvík þegar þeim var úthlutað á dögunum.
Af þeim voru 177 gildar umsóknir, samkvæmt fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Eitthvað var um að fyrirtæki skiluðu inn umsóknum, en þar sem umsóknir einstaklinga nutu forgangs var dregið úr 153 umsóknum.
Dregið var um 1. 2. og 3. val. Falli umsækjandi í fyrsta vali frá lóðarumsókn gengur lóðin til þess næsta eða þess þriðja ef svo ber undir. Gildir þetta til 1. maí 2025. Losni einhver lóðanna eftir þann tíma er lóðin laus til umsókna. Ef lóð losnar fyrir þann tíma og enginn þeirra þriggja sem dregin var þiggur lóðina er lóðin laus til umsókna að nýju, segir í fundargerðinni.



















