Nýjast á Local Suðurnes

Viðræður Reykjanesbæjar við lánadrottna ganga hægt

Viðræður Reykjanesbæjar við lánadrottna um niðurfærslu skulda ganga hægt, meðal annars vegna áforma ríksins að aflétta gjaldeyrishöftum með samkomulagi eða stöðugleikaskatti á þrotabú föllnu bankanna.

Skuldir Reykjanesbjæjar við lánadrottna nema um 44 milljörðum króna, þar af nema skuldir A-hluta bæjarsjóðs um 25 milljörðum króna og er stærsti einstaki lánadrottinn Reykjanesbæjar þrotabú Glitnis í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign hf., þetta kemur fram í grein sem Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri birti á heimasíðu sveitarfélagsins fyrir skömmu.

Í greininni hvatti Kjartan íbúa til að hafa ekki áhyggjur af þessum málum: “…Vona ég að sumarið verði okkur öllum ánægjulegt og hvet íbúa Reykjanesbæjar sem og aðra að hafa ekki áhyggjur af þessum málum. Það hefur aldrei hjálpað nokkrum manni að hafa áhyggjur. Á meðan skulum við, sem vinnum við að þoka þessum málum áfram, leggja okkur fram við að ná árangri í að endurskipuleggja reksturinn; Reykjanesbæ og íbúum hans til heilla.”