Uppfylla ekki lög um kynjahlutföll – 53 konur og 5 karlar í undirkjörstjórnum

Tilnefnt var í undirkjörstjórnir í Reykjanesbæ vegna forsetakosninga 2016 á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var þann 7. júní síðastliðinn. Af þeim 58 einstaklingum sem tilnefndir voru í undirkjörstjórnir eru 53 konur og 5 karlar.
Minnihluti Sjáfstæðisflokks í bæjarstjórn benti á að þetta samræmdist ekki sveitarstjórnarlögum um kynjahlutföll í nefndum og greiddi atkvæði á móti tillögunni, sem var hinsvegar samþykkt með atkvæðum meirihluta.
Böðvar Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
„Í ljósi þess að kjör undirkjörstjórna uppfyllir ekki ákvæði 45 gr. sveitarstjórnarlaga um kynjahlutföll í nefndum sem skipaðar eru af hálfu bæjarstjórnar geta undirrituð ekki samþykkt þá tillögu sem hér liggur fyrir um undirkjörstjórnir.“