Tvöföldun Reykjanesbrautar að FLE – “Hönnun gatnamóta gengur ekki upp”

Til stendur að að breyta gatnamótum Reykjanesbrautar við Þjóðbraut, þar sem nú er hringtorg, eingöngu í beygjuakrein til hægri frá Þjóðbraut og hægri beygju frá Reykjanesbraut. Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar þar sem þessum fyrirætlunum er mótmælt.
Bæjarstjórn bendir meðal annars á mikilvægi gatnamótanna fyrir viðbragðsaðila sem nýta veginn oft á dag, auk þess sem bent er á að mikill fjöldi íbúða sé í byggingu á svæðinu.
Bókun bæjarstjórnar í heild:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að skipulags- og matslýsing á breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020 – 2035 verði auglýst.
Þrátt fyrir að margt hafi áunnist og batnað frá fyrstu drögum þá er enn stórt atriði sem að okkar mati gengur ekki upp, en það varðar gatnamótin við Þjóðbraut.
Í dag eru í byggingu eða fara fljótlega í byggingu við Þjóðbraut rúmlega 1.000 íbúðir, tæplega 900 í Hlíðarhverfi 2 og 3 og síðan fjöldi íbúða á Akademíureitnum. Auk þess á að byggja upp verslunar-og þjónustukjarna á Akademíureitnum sem og miðstöð almenningssamgangna.
Nú þegar liggja fyrir áform um mikla uppbyggingu íþróttamannvirkja aftan við Reykjaneshöll sem er einnig við Þjóðbraut. Þá er rétt að nefna að þessi gatnamót eru notuð af fjölda bæjarbúa og annarra Suðurnesjamanna sem sækja Fjölbrautaskóla Suðurnesja daglega.
Bæjarstjórn vill einnig benda á mikilvægi gatnamótanna fyrir viðbragðsaðila slökkviliðs og lögreglu sem nýta veginn oft á dag. Teljum við það mikilvægt öryggismál að halda Þjóðbraut óbreyttri með hringtorgi.
Vegna framangreinds sjáum við það hreinlega ekki ganga upp að breyta gatnamótum Reykjanesbrautar/Þjóðbrautar eingöngu í beygjuakrein til hægri frá Þjóðbraut og hægri beygju frá Reykjanesbraut.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vonast eftir því að í heild verði haldið áfram með það sem kemur fram í skipulags-og matslýsingu en að bætt verði við hringtorgi eða mislægum gatnamótum við Þjóðbraut/Reykjanesbraut fyrir öryggi og uppbyggingu Reykjanesbæjar.“