Nýjast á Local Suðurnes

Sonurinn skilaði sér ekki eftir vetrarfrí – Kostnaðarsamt ferli framundan

Ragnar Vilhelmssen Hafsteinsson býr sig undir langa og stranga deilu á milli landa eftir að sonur hans, sem hann hefur fulla forsjá yfir, skilaði sér ekki til baka eftir dvöl hjá móður sinni. Fyrrverandi sambýliskona Ragnars býr í Slóvakíu en Ragnar í Noregi og lítur Ragnar ekki á málið sem hluta af forsjármáli heldur sem barnsrán. Málið er því flókið og Ragnar býst við því að það verði kostnaðarsamt.

“Þetta verður langt, strangt og kostnaðarsamt ferli, enda er ég með fulla forsjá. Þetta er því barnsrán og það eina sem maður getur gert er að berjast áfram,“ segir Ragnar í samtali við Local Suðurnes.

Ragnar kynntist fyrrverandi sambýliskonu sinni árið 2004 áður en þau héldu hvort í sína áttina. Ragnar starfaði sem friðargæsluliði í Afganistan um skeið en konan, sem er frá Slóvakíu, nam dans á Karabíahafseyjum. Tveimur árum síðar lágu leiðir þeirra saman á ný og þau hófu sambúð á Íslandi. Árið 2009 fæddist þeim sonur en þau slitu samvistir árið 2010.

Þar sem ekki náðist samkomulag um umgegni fór málið fyrir dóm. Báðir aðilar kröfðust fullrar forsjár yfir drengnum en að loknu sálfræðimati og mati á fjárhag deiluaðila var það niðurstaða dómsins að Ragnar færi með fulla forsjá drengsins enda myndi það henta hagsmunum barnsins best.

ragnar vilhelmsen

Brosmildir feðgar á góðri stund

Skilaði sér ekki eftir vetrarfrí

Það var eftir vetrarfrí í skólanum í Noregi sem drengurinn skilaði sér ekki til baka og fór Ragnar þá að gruna ýmislegt. Hann fékk ekki að tala við son sinn og fjölskylda konunnar hefur ekki heldur svarað símtölum hans.

„Hann fór til móður sinnar 4. október og átti að vera hjá henni í viku. Ég talaði við hann á Skype á þriðjudeginum og ætlaði að gera það aftur á laugardaginn en þá tjáði hún mér að hann væri veikur og gæti ekki talað við mig. Það er svo sem ekkert skrítið. Ég er orðinn vanur því að hann geti ekki talað því netsambandið sé lélegt, að sögn móður drengsins, eða hún hafi ekki tíma til að leyfa honum að spjalla við mig,“ segir Ragnar.

Kostnaðarsamt ferli – Hægt að leggja Ragnari lið

Ragnar býst sem fyrr segir við að ferlið við að koma syni sínum aftur til Noregs verði langt og kostnaðarsamt en hann hefur þegar ráðið sér lögfræðing sér til aðstoðar auk þess sem hann hefur haft samband við lögreglu og dómsmálaráðuneyti í Noregi.

Hægt er að leggja Ragnari lið fjárhagslega með því að leggja inn á reikning númer 545-26-110209 Kt 021075 3969. Ragnar mun svo á næstu dögum setja upp Facebook-síðu þar sem nánar verður greint frá gangi mála.