Nýjast á Local Suðurnes

Skerðing á þjónustu leikskóla kom bæjarfulltrúum í opna skjöldu

Þjónustuskerðing sem orðið hefur í leikskólum í Reykjanesbæ kom bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks í opna skjöldu er málið var rætt á fundi bæjarstjórnar í kjölfar fyrirspurnar.

Í svörum við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins kom fram að á Heiðarseli hefur þjónusta verið skert í alls 17 skipti og í Stapaleikskóla hefur þjónusta verið skert í alls 12 skipti þar af 9 skipti á vorönn.

Bókun Sjálfstæðisflokks í heild:

„Á síðasta bæjarstjórnarfundi var Sjálfstæðisflokkurinn með fyrirspurn vegna þjónustuskerðingu sem hefur orðið í leikskólum Reykjanesbæjar veturinn 2024 – 2025.
Sjálfstæðisflokkurinn undrast hversu mikil þjónustuskerðing hefur orðið, sérstaklega í Heiðarseli og Stapaskóla án þess að bæjarfulltrúar hafi haft vitneskju um málið.

Í Heiðarseli hefur þjónusta verið skert í alls 17 skipti í heild, þar af 16 skipti á haustmánuðum 2024. Stapaleikskóli hefur í heild skert þjónustu í alls 12 skipti þar af 9 skipti á vorönn.

Þrátt fyrir að stjórnendur hafi reynt að láta skerðinguna bitna sem minnst á börnum og fjölskyldum þá hefur þessi skerðing oft á tíðum verið með litlum sem engum fyrirvara og telur Sjálfstæðisflokkurinn ástæðu til að farið sé sérstaklega yfir málið í menntaráði og skoðað hvernig hægt er að bregðast við þannig að ekki komi til skerðingar.“