Tvö hringtorg lausnin á Njarðarbraut

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur samþykkt að hefjast handa við uppbyggingu tveggja hringtorga, annað á mótum Njarðarbrautar og Fitjabakka og hitt á mótum Njarðarbrautar og Bergás.
Hafist verður handa við uppbyggingu á stóru 48 metra hringtorgi við Fitjatorg í sumar sem mun að mati bæjarstjórnar bæta umferðarflæði um Njarðarbrautina og tekur við umferðarþunga um Fitjabakkahverfið. Þá verður reist annað hringtorg við Bergás sem verður þó minna í sniðum en hringtorgið við Fitjabakka. Með því er stefnt að því að leysa umferðarflæðið frá Ásahverfi sem mun væntanlega draga úr umferð íbúa yfir í Grænás.
Eftir íbúafund kom bersýnilega í ljós að íbúar telja að umferðarstýrð ljós við Bergás muni ekki bæta aðgengi íbúa hverfisins að Njarðarbrautinni, segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.